Saturday, April 14, 2007

Gleðilegt Nýtt Ár! 2064

Það er ekki úr vegi að óska ykkur til hamingju með hið nýja ár sem er að ganga í garð. Samkvæmt tímatali Nepals er nú árið 2064 gengið í garð og hefur síminn ekki stoppað með áramótakveðjum og almennri gleði yfir enn einu árinu.

Að þessu sinni er það Bikram Sambat dagatalið sem að hringir inn árið. En í Nepal eru fjögur tímatalskerfi sem að almennt er notast við.

Nepal Sambat kerfið er sennilega það merkilegasta sem notast er við í Nepal. Sambat dagatalið er dagatalið sem að menningalegar og trúarlegar hátíðir eru miðaðar við.

Vilja margir gera Sambat dagatalið að opinberu tímatali og má segja að það sé bæði félagslegur og pólitískur vilji til þess í dag. Það kerfi sem er opinberlega notað er svo hið áðurnefnda Bikram Sambat, norður indverska dagatalið sem var gert að Nepalska tímatalinu í byrjun síðustu aldar.

Newar fólkið fagnar fyrsta degi ársins 1127. Newar telja frá þeim degi er að mikill mannvinur, Shankhadhar Shakhwaa borgaði skuldir sem að hvíldu á Newar og gaf þeim nýtt upphaf. Má segja að þetta sé "fjárhagsár" Newar fólksins. Nepalska ríkistjórnin lýsti því svo yfir að Shankhadhar væri þjóðhetja árið 1999.

Fjórða kerfið er svo kerfi sem að er notað af Sherpum en það kerfi er tíbetskt/kínverskt að uppruna. Nýárið fellur á miðjan febrúar og er árið 2138 hjá þeim þarna í háloftunum.

Ofan á þessi tímatöl bætist svo vestræna gregoríska kerfið sem er notað í viðskiptum og fjármálakerfinu. Það eru einnig raddir í Nepal sem vilja taka upp vestræna kerfið þar sem það myndi einfalda málin töluvert.

No comments: